Háskóli Íslands

Líkamsþyngdarstuðull

 

Viðmiðunarmörk og ráðgjöf

Of létt/ur 

˂ 18,4

Ef þú ert ekki nú þegar í eftiriliti vegna þyngdar og ráðgjöf við að auka orkugjöf þína varðandi mataræði þá er þér ráðlagt að leita þér aðstoðar hjá heimilislækni eða hjá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslustöð þinni. 

Kjörþyngd

18,5 – 24,9

Allir ættu að stunda að reglulega hreyfingu (amk 30 mínútur á dag) og huga að hollu mataræði.

Yfirþyngd

25 – 29,9

Þú mættir íhuga reglulega hreyfingu og ráðlagt mataræði til að stuðla að heilbrigðu líferni. 

Offita

˃ 30

Ef þú hefur ekki þegar gert viðeigandi ráðstafanir er mælt með að þú leitir ráðgjafar hjá heimilislækni til þess að ná kjörþyngd. 

Mikil hætta á þróun

hjarta- og æðasjúkdóma

≥ 36

Það er mjög brýnt að þú gerir viðeigandi ráðstafanir varðandi hreyfingu og mataræði og mælt er með að þú leitir ráðgjafar hjá heimilislækni til þess að ná kjörþyngd. 

 

Þótt líkamsþyngdarstuðull gefi hugmynd um áhættu þína hvað varðar sjúkdóma gerir hann ekki greinarmunun á því hvort umframþyngdin er vegna vöðva eða fitu. Dæmi eru um sterkbyggða íþróttamenn með mikinn vöðmassa sem hafa BMI yfir 30 þótt þeir þjáist ekki af offitu. Því þarf að túlka BMI varlega hjá smágerðum og stórgerðum einstaklingum svo og þeim sem hafa mikinn vöðvamassa. 

Þrátt fyrir takmarkanir á LÞS sem mælingu þá hefur stuðullinn gagnast vel við að mæla breytingar á hópum yfir tíma. 

Hvernig viðhöldum við æskilegu BMI

  • Höfum reglu á matmálstímum, borðum 4-5 sinnum á dag
  • Höldum neysluvenjum í samræmi við orkuþörf
  • Veljum réttar skammtastærðir
  • Borða vel af grænmeti og ávöxtum með mat
  • Stundum reglulega hreyfingu amk 30 mín á dag
  • Neytum vatns sem er besti heilsudrykkurinn
  • Borðum lítið af sykri og einföldum kolvetnum

Líkamsþyngdarstuðull

Líkamsþyngdarstuðull (LÞS)er reiknaður út frá hæð og þyngd með jöfnunni kg/m2..  Samkvæmt skilgreiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar miðast kjörþyngd við 18,5-24,99, ofþyngd við 25-29,99 en offita við 30 eða hærra. Líkamsþyngdarstuðull sem mæling á þyngd og massa hefur verið nokkuð umdeildur þar sem ekki er gerður greinarmunur á aldri eða kyni, jafnframt þá er ekki hægt að greina á milli líkamsþyngdar sem stafar af fitu, vöðvum eða öðrum vefjum líkamans.  Líkamsþyngdarstuðul þarf því að túlka gætilega en vissulega er þetta sú mæling sem rannsóknir hafa sýnt fram á að tengist aukinni dánartíðin meðal þeirra sem eru yfir kjörþyngd.  Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að þeir sem eru yfir kjörþyngd séu í aukinni áhættu á hinum ýmsu sjúkdómum.  Þess ber þó að geta að rannsóknum ber ekki alltaf saman um áhættu þeirra sem flokkast í ofþyngd og þeirra sem flokkast í offitu, á sjúkdómum og dánartíðni.  Sumar rannsóknir sýna eins konar u- laga samband, en með því er átt við að áhættan sé aðeins tilkomin hjá þeim sem flokkast í undirvigt (< 18) og þeim sem flokkast í offitu (≥ 30).   

Algengi offitu hefur þrefaldast frá árinu 1980 í Evrópu.  Samkvæmt skýrslu sem gefin var út árið 2009 af Landlæknisembættinu, voru um 19% karla í offitu (LÞS ≥30) á Íslandi og um 21% kvenna voru í sama hópi (LÞS ≥30).  Rannsóknir hafa sýnt að offita dregur úr meðal ævilengd einstaklinga.  Rannsókn frá Bandaríkjunum sýndi að karlar og konur sem voru með hærri líkamsþyngdarstuðul en 30 (offita) við 40 ára aldur lifðu 6-7 árum skemur en þeir sem voru í kjörþyngd. 

Það að vera í yfirvigt eða offitu setur okkur í aukna áhættu á sjúkdómum á borð við hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki 2 (insúlínóháð sykursýki).  Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur reiknað út að draga megi úr um 64% tilfella sykursýki 2 með því að halda líkamsþyngdarstuðli við eða undir 25 kg/m2..

Hafa þarf hugfast að þegar fjallað er um samband ofþyngdar og offitu við heilsufar, að sambandið grundvallast á fleiri undirliggjandi þáttum á borð við hreyfingu og mataræði.  

Góð hreyfing og hollt mataræði eru undirstöðuatriði þegar kemur að því að viðhalda æskilegum líkamsþyngdarstuðli. Hreyfum okkur daglega, 30 mínútur í senn. Það bætir heilsu og vellíðan. 

Heimildir:

Drewnowski, A. (2009). Obesity, diets, and social inequalities. Nutr Rev, 67 Suppl 1, S36-39.

Fegal, M. K., Glaubard, B.I., Williamson, D.F. og Gail, M.H., (2005). Excess deaths associated with undiweight, overweight and obesity.  Journala of the American Medical Accociation 293, (15), bls 1861-1867.   

Valdimarsdóttir, M., Jónsson, S.H., Þorgeirsdóttir, H., Gísladóttir, E., Guðlaugsson, J.Ó., Þórlindsson,Þ. (2009).  Líkamsþyngd og holdafar fullorðinna Íslendinga frá 1990 til 2007. Lýðheilsustöð. Sótt af  http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11583/Holdafar.skyrsla.25.sept.pdf

WHO. (2007). The challenge of obesity in the WHO European Region and the strategies for response.  Sótt af http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0008/98243/E89858.pdf

 

Frekari fróðleikur um líkamsþyndarstuðul:

Reiknaðu út BMI stuðul þinn

Hvað er BMI-stuðull? 

Fróðleikur Hjartaverndar um offitu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is