Háskóli Íslands

Spurningalisti

Spurningalisti Heilsusögunnar byggist upp á eftirfarandi grunnþemum;

  1. Bakgrunnur
  2. Lífstíll
  3. Geðheilsa
  4. Heilsufarssaga
  5. Meðferð
  6. Karlar og heilsa
  7. Konur og heilsa

Þátttakendur munu fá sendar upplýsingar og slóð á spurningalista og áætlað er að það taki hvern þátttakanda frá 30 mínútum og upp í 50 mínútur að svara.

Bakgrunnur

Í bakgrunnshluta spurningalista er spurt um ýmsa lýðfræðilega þætti;  fjölskylduhagi, atvinnu, húsnæði og  heimilislíf.  Í fjölda erlendra og innlendra rannsókna hefur verið sýnt fram á svokallaðan menntunarhalla þegar kemur að sjúkdómsbyrði og dánartíðni. Það er að einstaklingar sem hafa minni menntun eru almennt líklegri til að fá ákveðna sjúkdóma heldur en þeir með meiri menntun og öfugt.

Lífsstíll 

Í lífsstílshluta rannsóknarinnar er spurt um hreyfingu, húsnæði, svefnvenjur,  tóbaks- og áfengisnotkun og mataræði.

Þekkt er að hreyfing getur minnkað líkur á ýmsum sjúkdómum. 

Loftgæði innandyra og húsakostur geta haft áhrif á heilsufar einstaklinga.

Svefn er grundvallarskilyrði fyrir góðri líkamlegri og andlegri líðan. Spurt er um lengd og gæði svefns ásamt almennum dægursveiflum.

Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á tengsl reykinga við lungnakrabbamein og fleiri tegundir krabbameina.  Reykingar geta einnig valdið því að sjúkdómur sem þegar hefur myndast geti versnað við neyslu á tóbaki. Ásamt reykingum er einnig spurt um notkun á reyklausu tóbaki eins og munn- og neftóbaki.  

Óhófleg áfengisneysla getur haft bæði líkamlegar og andlegar afleiðingar þar sem að óhófleg neysla áfengis getur leitt til félagslegrar einangrunar, geðraskana, ýmissa sjúkdóma og kvilla.

Mataræðisspurningar gera rannsakendum kleift að rannsaka nánar flókið samband mataræðis og hinna ýmsu sjúkdóma á borð við offitu, hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki 2 og meltingarsjúkdóma. 

 

Andleg líðan

Í þessum hluta er spurt um þætti sem áhrif hafa á andlega líðan, svo sem félagslegan stuðning, daglegar áhyggjur og streitu. Þá er skimað fyrir einkennum þunglyndi og kvíða og spurt um líkamsímynd og einkenni athyglisbrests.  Einnig er spurt um áföll og erfiða lífsreynslu og áhrif á líðan í dag.

 

Heilsufarssaga

Heilsufarssaga spannar vítt svið þar sem spurt er um verki, síþreytu, veikindi, lyfjameðferð, sjúkdóma, ofnæmi, höfuðverk og tinnitus (eyrnasuð). 

Þátttakendur eru spurðir hvort þeir hafi verið greindir með sjúkdóm sem tengjast: hjarta, lungum, húð, innkirtlum, meltingu, þvagfærakerfi, stoðkerfi, taugakerfi, geðheilsu og sjúkdómum sem greinast í barnæsku. Í þeim tilfellum sem einstaklingur hefur sjúkdóm verður leitað eftir nánari upplýsingum um viðkomandi sjúkdóm til að mynda tegund skjaldkirtilssjúkdóms, tegund og meðferð við sykursýki og meðferð og greining á háþrýsting.

Meðferð

Í meðferðarhluta er spurt um notkun þátttakanda á  lausasölu- og lyfseðilskyldum  lyfjum, um ástundun líkamsræktar og meðferðar vegna andlegrar eða  líkamlegrar vanlíðunar.

Heilsa kvenna og karla

Mikilvægt er að kynjasjónarmið séu með frá upphafi rannsókna þar sem karlar og konur upplifa ólík heilsufarseinkenni. 

Bæði kyn verða spurð um kynhegðun sína, þá sértaklega um áhættusækna  kynhegðun og sjúkdóma sem smitast við kynmök. 

Heilsa kvenna

Ýmsir þættir sem tengjast konum sérstaklega eru mikilvægir áhrifaþættir heilsu. Í spurningalistanum er sérstökum sjónum beint að þessum þáttum og reynslu kvenna af þeim, eins og kynhegðun, blæðingum, getnaðarvörnum, þungunum, ófrjósemi, breytingaskeiði, beinþynningu og þvagleka.

Heilsa karla

Karlar eru einnig spurðir sérstaklega um þætti sem geta tengst þeim sérstaklega, eins og kynhegðun, notkun getnaðarvarna og einkenni frá blöðruhálsi. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is