Háskóli Íslands

Þátttaka

Forrannsókn Heilsusögunnar er nú formlega lokið.

 

Forrannsókn Heilsusögunnar hófst í febrúar 2014 en þá fengu konur sem áttu tíma í krabbameinsskoðun  boð um þátttöku. Forrrannsókn á meðal kvenna er nú lokið.

Forrannsókn meðal karla á höfuðborgarsvæðinu hófst  í mars og stóð yfir fram í miðjan maí.

 

Hvað felur þátttaka í sér?

Þátttaka í rannsókninni felur í sér að svara spurningalista um heilsu og heilsutengda hegðun á netinu sem tekur að öllu jöfnu um 30-40 mínútur að svara. Auk þess verður framkvæmd stutt heilsufarsskoðun (um 30 mínútur) í húsnæði Krabbameinsfélags Íslands þar sem blóðþrýstingur og hjartsláttarhraði verður mældur, hæð og þyngd, blóðprufa tekin og tvö örsmá hársýni klippt af hnakkasvæði. Lífsýni verða meðhöndluð og arfgerðagreind, og varðveitt í lífsýnasafni Íslenskrar erfðagreiningar á dulkóðuðu formi. Gætt verður fyllsta trúnaðar í meðferð allra upplýsinga; áður en sýni eða upplýsingar verða notuð til vísindarannsókna verða einstaklingsauðkenni fjarlægð og einkennisnúmer sett í staðinn. Öllum þátttakendum í rannsókninni verður síðan boðið í endurkomu á u.þ.b. 2-4 ára fresti.

 

Hvers vegna að taka þátt?

  • Þekking í almannaþágu.  Von okkar er að rannsókn Heilsusögu Íslendinga muni svara mikilvægum spurningum um þróun heilsufars og um áhættuþætti sjúkdóma . Að auki væntum við þess að rannsóknin muni gefa grunn að framúrskarandi þekkingu sem mun efla vísindi og rannsóknir í landinu og vekja athygli á alþjóðavettvangi.
  • Bætt heilsa landsmanna. Aukin þekking er mikilvæg til að byggja upp skilvirkt forvarnarstarf.  Slíkt leiðir af sér inngrip áður en heilsuleysi tekur völd. Þannig stuðlum við að aukinni heilbrigðisvitund og jafnframt að bættri líðan og lífsgæðum komandi kynslóða.  
  • Upplýsingar um eigið heilsufar. Allir þátttakendur fá upplýsingar um heilsufar sitt sér að kostnaðarlausu (líkamsþyngdarstuðul og blóðþrýsting), og geta fylgst með þróun í endurteknum  mælingum  á nokkurra ára fresti.

 

Ferlar

Í forrannsókninni verður svarshlutfall metið og forspárþættir fyrir þátttöku. Þá er mikilvægt markmið að kanna upplifun þátttakenda og óskir þeirra, meðal annars um veitta endurgjöf á eigin heilsufari og leiðum til úrbóta. Niðurstöður forrannsóknar munu verða til þess að hægt sé að þróa og bæta rannsóknaraðferðir og þannig auka réttmæti og gæði Heilsusögu Íslendinga.  

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is