Háskóli Íslands

Um rannsókn

 

Heilsusaga Íslendinga er langtíma ferilrannsókn sem hefur að meginmarkmiði að varpa ljósi á áhrif og samspil nútíma lífsstíls, félagslegra aðstæðna, streitu og erfða á heilsu. Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands við erlenda samstarfsaðila. Áætlað er að rannsóknin taki til um 100.000 Íslendinga á næstu 10 árum. Þátttakendur fá endurgjöf á lífstíl sinn og heilsufar í gegnum rannsóknina. Kerfisbundnar forvarnir eru því samtvinnaðar við þessa viðamiklu vísindarannsókn og samfélagslegur ávinningur verkefnisins þannig margþættur.

                                   

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Áætlanir gera ráð fyrir að allir fullorðnir Íslendingar á aldrinum 20-69 ára muni fá boð um þátttöku í rannsókninni og verður boðið endurtekið á þriggja til fjögurra ára fresti. Konur munu fá boð um þátttöku gegnum leitarstöð Krabbameinsfélagsins í tengslum við boð í skimun (brjóstamyndatöku eða leghálssýnatöku). Karlmenn munu fá kynningarbréf og símtal með boð um þátttöku. Gagnasöfnun er tvíþætt, annars vegar með spurningalista á netinu og hins vegar með stuttri heilsufarsskoðun þar sem klínískum mælingum og lífsýnum er safnað. Söfnun og geymsla upplýsinganna mun byggja á upplýstu samþykki þátttakenda að gefnu leyfi Persónuverndar og Vísindasiðanefndar. 
 
Gert er ráð fyrir víðtækri þátttöku vísindamanna við Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands í undirbúningi, framkvæmd og úrvinnslu rannsóknarinnar. Af hálfu Háskóla Íslands er Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði ábyrg fyrir undirbúningi og framvindu verkefnisins og af hálfu Krabbameinsfélagsins eru það Leitarstöðin og Krabbameinsskráin. Heilsusaga er jafnframt hluti af Global Cohort Initiative sem er alþjóðleg samvinna nokkurra ferilrannsókna sem skipulagðar eru víðsvegar í heiminum. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is